3.11.2009 | 00:35
Platan kemur út á fimmtudaginn!
Nýja platan okkar er komin til landsins og verður formlega gefin út á fimmtudaginn. Platan heitir 8 og er áttunda breiðskífa okkar, frá því við byrjuðum að brasa við plötuútgáfu sumarið 1997 .
Heiti plötunnar vísar auðvitað til fjölda platna sem við höfum gert, en einnig til ýmissa annarra hluta, enda er talan 8 margbrotin. Í japönskum fræðum er talan 8 t.d. tákn um vaxandi happasæld og oft er litið á töluna sem tákn um hið óendanlega og eilífa vináttu - svo fátt eitt sé nefnt sem tengja má við töluna 8.
Platan inniheldur alls 11 lög, öll eftir okkur sjálfa, og fólk ætti að vera farið að þekkja u.þ.b. helming þeirra nú þegar.
Vinna við plötuna hefur staðið yfir allt frá árinu 2006, en fyrsti singullinn fór í spilun í ársbyrjun 2008 og síðan hafa lög af plötunni verið í nokkuð reglulegri útvarpsspilun.
Nú nýverið sendum við frá okkur 6. singulinn af plötunni, en það er lagið Verst að ég er viss, sem hefur fengið mjög góðar viðtökur útvarpshlustenda og hægt er að hlusta á hér í spilaranum til hliðar.
Með plötunni fylgir einnig vönduð 16 síðna lesbók, með textum og fleiri gagnlegum upplýsingum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.